Færslur: 2008 Maí

29.05.2008 08:40

Landstím

Þá erum við loks á landstími eftir langan, strangan túr.

ETA er 20:00 í höfn Rvk.

Ekki veit ég hvað vakir fyrir vegamálaráðherranumog vona að skipstjórnarmenn hér um borð hlusti ekkert á þetta og leggist bara við kæjan eins og aðrir.

Ég vil byrja á því að þakka öllum fyrir túrinn og vona að menn hafi það sem best í fríinu.

Farið bara varlega því hættur reynast víða í landi eins og sést á fréttum morgunblaðsins

Ég vona bara að menn taki því rólega eins og sumir

geri kannski eitthvað sem þeir ættu að vera löngu búinir að gera

Taka kannski til hendinni heima hjá sér

Eyða kannski einhverjum peningum

en innan marka þóog passa að borga reikningana

Svo má alltaf grípa í grillið 

sumir láta kannski athuga heilsufarið eftir langa útiveru

Samt er albest að ferðast á sumrin, til dæmis innanlands

bara að fara rólega

og hafa landakortið með

og utanlands

Liggja í sólbaði

Sumir þurfa kannski að leysa sín mál

og ganga frá lausum endum


og svo eru þeir sem eru á leið í fæðingarorlof

aðalmálið er að sinna betri helmingnumSvo er bara að leggjast á árarnar á laugardaginn.

Reynið bara að hafa það sem allra best og njóta lífsins.

kveðja
Valdi vél

25.05.2008 08:45

14 tonn

Það læðist að manni grunur um að þetta sé allt okkur að kenna. Það kom í ljós að í veðbankanum okkar hér um borð hafði enginn tippað á 14. sæti. Potturinn var kominn í rúma 4 kassa af bjór.

Er einhver að reyna að segja eitthvað?

Þau stóðu sig vel........eeeeen lentu í 14. sæti. Er ekki rétt að leggja þessa keppni niður áður en hún reisir járntjaldið að nýju?

Ég hef ekki mörgu við að bæta frá því í gær en ákvað að blogga eftir að ég sá þessa frétt. Ég get tekið við bjór sem greiðslu.

12 stig til Noregs


Veröld/Fólk | 24 stundir | 24.5.2008 | 05:30

Bloggarar vilja listamannalaun

Tveimur norskum bloggurum hefur verið neitað um að fá sérstök ?blogglaun? frá norska ríkinu. Bloggararnir sóttu um laun hjá norska menningarmálaráðuneytinu og segja að bloggarar ættu að geta fengið laun, líkt og sumir listamenn fá listamannalaun.

Annar umsækjandinn sagði að hann fengi um 150 gesti inn á síðu sína í hverri viku og þeim færi fjölgandi. Segir sá að með því að fá laun gæti það loks borgað sig að blogga, þar sem þetta sé tímafrek iðja.


Það er silfur að segja frá
samt, er að þegja gull.
Þó er best, er menn byrja á
að blogga eitthvað bull.

kveðja
Valdi vél

24.05.2008 11:10

Júróvisíon

Þetta er mitt líf.Við erum hérna á hryggnum ennþá. Eins og það sé frétt. Veður með ágætum en þónokkur þoka í dag. Lítið um kraftfiskerí eins og segir í frétt á sjavarfrettir.is.

Settur hefur verið upp veðmálabanki í borðsalnum og veðjað er á sæti Íslands í Eurovision. Lítið finnst mér leggjast fyrir landann því aðeins einn hefur spáð 1. sæti en flestir spá okkur neðar en 10. sæti. Sjálfur setti ég okkur í 16. sæti enda finnst mér við eiga það sæti skuldlaust. Því miður hefur metnaður minn fyrir Íslandshönd í þessari keppni, ætíð verið lítill en þó má kannski hafa skemmtun af þessu. Alla vega þá hefðu sum atriðin sem sýnd voru í undankeppninni sómt sér vel á súlustað.

75 sent en minn maður!!!!!!!

Komið hefur upp sú hugmynd að þar sem löndum í keppninni hefur fjölgað svo mjög að keppninni yrði breytt. Keppt yrði í riðlum heima og heiman. Þetta gæti t.d. farið þannig fram að lagið mætti vera þjár mínútur og síðan yrði keppt um það hver væri fljótastur að flytja sitt lag. Lokakeppni færi síðan fram á fjögurra ára fresti.

Eurovision speedsong contest.

Ég er viss um að þetta yrði mjög vinsælt og gæti jafnvel orðið grein á Ólimpíuleikunum. Þá væri náttúrulega um að ræða að menn yrðu að ná lágmarki. Settar yrðu reglur t.d. yrði lagið að vera í 4/4 takti, aðeins mætti nota GCD hljóma, hálfnótuhækkun yrði að vera í síðasta kafla og síðasta nóta ætti að vera 8 taktar. Flytjendur væru skyldugir til að vera í klæðnaði sem væri hentugur í baðstrandablak og mættu ekki fara yfir vissa fituprósentu.

Það er svolítið skrítið að keppa í musik............

Ég veit við getum ef guð lofar,
og gerum honum þökk.
Þá við endum sæti ofar,
en "All out of f***."


Ég fékk mér kaffi áðan. Í borðsalnum hópuðust nokkrir af snöpururnum kringum eina fartölvu. Verið var að vafra á netinu og af upphrópum þeirra að dæma var verið að skoða bíla. Þar heyrðist eins og "Djöfull langar mig í þennann." og fleira í þeim dúr. Það vildi nú svo til að síðan fer ég að hlaða niður Morgunblaðinu fyrir daginn og rakst þá á þessa frétt.

Veröld/Fólk | 24 stundir | 24.5.2008 | 05:30

Játningar karlmanns: Hefur svalað sér á þúsund bílum

Bandaríkjamaðurinn Edward Smith, 57 ára, hefur játað að hafa átt "mök" við fleiri en þúsund bíla og ver það að bera rómantískar tilfinningar í garð farartækja. Á vef Telegraph segir að Smith búi nú í Washington-ríki með "kærustu" sinni, Volkswagen- bjöllu að nafni Vanilla.

Smith segist ekki vera sjúkur og hyggst ekki breyta lífsmáta sínum. "Ég er rómantískur, yrki ljóð um bíla, syng til þeirra og tala við þá líkt og þeir væru kærasta mín." Hann segist fyrst hafa notið ásta við bíl 15 ára að aldri, en að besta kynlífsreynslan hafi verið með þyrlu, sem notuð var í sjónvarpsþáttunum Airwolf.

Nei..... bara tilviljun..........eða hvað!

kveðja
Valdi vél

22.05.2008 21:43

This is my life !Tækni & vísindi | mbl.is | 20.5.2008 | 10:29

Karlar fórnarlömb heimilisofbeldis

Samkvæmt nýrri könnun sem gerð var í Bandaríkjunum eru það ekki einungis konur sem eru fórnarlömb heimilisofbeldis, heldur verða karlar einnig fyrir því. Tæplega 30% þeirra karla sem þátt tóku í könnuninni höfðu sætt ofbeldi af hálfu maka sinna.

Aldrei hefði mig grunað þetta!

kveðja
Valdi vél

20.05.2008 18:13

Plögga

Það er kominn nýr linkur á síðuna hérna til hægri, Lúgubandið tékkið á því!!!!!!

Við erum ennþá hérna í rólegheitum á hryggnum. Lítið að gerast, veður aðgerðalítið og aðgerðir litlar í fiski.

Ég get nú ekki annað er vorkennt henni Ingibjörgu Sólrúnu. Nú eru þeir búnir að gefa út kvóta á hval og hún greyið þarf að tala þvert um hug sinn þegar hún þarf að réttlæta þetta við aðra á einkaþotuflugferðum sínum um heiminn.

Verst að hún getur ekki reddað sér eins og hún gerði í Palestinu, bara skella 60 manns á Akranes í hvelli og láta sveitarfélagið borga svo ríkisjóður geti sýnt góða afkomu áfram.

Hún lætur þá á Brjánslæk kannski ættleyða nokkra hvali.

Ég sá Silfur Egils um daginn, það væri kannski hugmynd fyrir Egil að þeir sem koma í þáttinn tali saman í Simplex talstöð. Þá kannski myndi maður heyra álit einhverra í þættinum en ekki fólk að bulla ofan í hvort annað.

Svo er aumingja Sigmund tekinn á beinið í Ameríkunni, fyrir að hafa teiknað mynd af Obama og Clinton.
Hann mátti ekki teikna Obama eins og svertingja (Má segja/skrifa svertingi??) og það var niðurlægjandi fyrir frú Clinton að vera nakin í heitum potti. Eflaust má lesa fleira út úr þessari mynd en ég held að það hafi nú bara vakað fyrir Sigmund að vera fyndinn. Myndin er að sjálfsögðu ýkt annars væri þetta ekki skopmynd.Ég vona bara að þetta verði ekki eins og með myndirnar af Mohammed spámanni og Amerikaninn hætti að kaupa af okkur fisk, þó svo við birtum þetta hér........eða kannski væri það ágætt.

Nú hef ég persónulega mikla samúð með stóru og útstæðu eyrunum á Davíð Oddsyni og finnst Sigmund fara oft mjög ílla með hárið á Dabba eins og hann geri sér ekki grein fyrir því hversu erfitt er að vera í minnihlutahópi okkar með stóru útstæðu eyrun. En ég ætla ekki að fara að æsa mig yfir því.Maður verður að gæta sín við hvern mann, hann gæti tilheyrt minnihlutahópi og þú vændur um rasisma af minnsta tilefni.

Við vélstórar getum talist til minnihlutahóps um borð, en ef menn verða fyrir aðkasti þá er því tekið með jafnaðargeði því við vitum að það er okkur að þakka að flotinn er á floti.

En minnihlutar geta líka verið sterkir.

Á lýðræði menn geta fundið galla stóra,
en gæti verið að í því sé enginn glóra.
Slíkt er alveg djö........
að 6527
sé nóg til að eignast borgarstjóra.

kveðja
Valdi vél


 

17.05.2008 16:39

Árás á rás tvö

Ég verð að hæla þeim heimasíðumönnum fyrir þessa nýju skoðanakönnun sem er hér á síðunni. Ég hefði að vísu frekar vilja láta leggja Rás Tvö niður og banna allar frálsar útvarpstöðvar að nýju.

Tökum upp þá gömlu góðu tíma þegar Gamla gufan átti sitt blómaskeið sem stóð ekki nema í um 40 ár og allir voru ánægðir.

Bensínlíterinn kostaði 35 kr. og kvótakerfið ekki til.


Langbylgjublús

Með Peltorinn á hausnum, þú pælir ekki neitt,
og pakkar þínar pönnur eigi fús.
Er síbyljan í eyrunum, sér rennir út í eitt,
skaltu raula þennan langbylgjublús.

Á vaktaskiptum þig vekur, sviti og svimi,
súr lykt af bolnum, í brókum bremsuför
Þá heldur þú hressist í Morgunleikfimi,
hristir þá og hossar þinni mör.

Með verk um þig miðjan, mátt til að losa vind,
og mjóhrygginn vöðvabólgan mæðir.
Líkt og sent frá himnum, Samfélag í nærmynd,
sem hefur þig upp í hæðstu hæðir.

    Langbylgjublús
    Við þetta FM garg hef aldrei verið dús.
    
Virðist þeirra takmark vera heilsu og heyrnartjón.
    Hvar í veröldinni er þetta fjandans Partýsón?
    
Er nokkur leið að fá því lokað strax í dag,
    
líðan yrði betri og allt með bættum brag.

Á
 sjónum oft með hárri raust, rædd eru málin,
og rifist um allt og ekki neitt.
Ef viðræðurnar væru, líkt og Laufskálinn,
léttari lund þá lífið gæti veitt.

Svo ærast menn í ufsa, með engann kvótann,
yfir ráðherra veruleikafyrrð.
Fátt þá friðar betur, en fagra Hlaupanótan,
færist yfir ró og alger kyrrð.

Svo sameinumst allir, mínir samferðamenn,
sem á FM gargi eru mettir.
Setjumst nú niður og hlýða skulum allir í senn,
á síðasta lag fyrir fréttir.

Látið nú heyra í ykkur lagsmenn allir!!!!

kveðja
Valdi vél

16.05.2008 13:37

Arr arrr arrrr

og flösku af rommi með!!

Þá erum við búnir að vera á hryggnum í nokkra daga og gengið upp og niður eins og á krónunni.
Landhelgisgæslan búinn að gefa það út að hér séu öngvir sjóræningjar. Eitthvað er af rússum hérna en færri en oft áður, líklega olíuverðið sem gerir það.

Snapararnir hafa haft það ágætt undanfarið, sofa vel og matast vel. Boxpúðinn óspart notaður enda veður með eindæmum gott. Með nýjum mönnum koma nýjar hetjusögur og dálitið hefur verið um slíkar undanfarið.

Ég vil benda á að það eru komnar fleiri myndir í albúm og svo hefur bæst við Mannlegu hliðina. Ég er nú ekki alveg sáttur við þessa skoðanakönnun hérna til hliðar en við sjáum til.

Sjálfur er ég á sjúkralista eins og er. Hef lítil not af hægri þumli eftir að hafa skorið í hann með spæni af rennibekknum og er það helsta ástæða þess að ég blogga núna. Skapið ekki sem best.

Eftir að hafa skoðað nokkur blogg á veraldarvefnum hef ég séð að menn gera mest af því að skrifa um hluti sem þeim leiðist eða eru ósáttir með.

Sjálfur er ég seinþreyttur til leiðinda en get nú ekki orða bundist.

Hvaða apaheila datt það í hug að hafa opið á sængurverinu á hliðinni!!!

Hér er  eitthvað sem hefur svínvirkað í áratugi og aldir og svo kemur einhver hrossrass og breytir því bara til að breyta því.

Er einhver þarna úti sem getur sagt hver tilgangurinn er með þessu? Alla vega er þetta vonlaust dæmi ef maður er meiddur á putta.

 

Eitt atomljóð í restina

Borgarnes.

Hraðahindrun á þjóðvegi eitt
og ég er að drepast í bakinu.

kveðja
Valdi vél.

11.05.2008 09:07

List

Ég er nú ekki nógu duglegur að setja eitthvað hérna inn en þið ættuð að kíkja á Mannlegu hliðina hérna til hægri. Strákarnir hafa verið að setja þar inn myndir af misjafnlega ljótum áhafnarmeðlimum og viðtöl með. Gott mál.

Við erum nú búnir að færa okkur undir suðvesturhornið. Lítið að hafa en komnir nær úthafinu, þaðan  sem engar fréttir berast, alla vega ekki af neinni veiði. Veðrið hefur nú eitthvað lagast.

Frá litlu er að segja. Menn dunda sér við að höggva mann og annan á flötum skjám fartölva og einhverjir taka í kana. Vinsældir Guitar Hero hafa dvínað þrátt fyrir að í því felist lítið tónlistarlegt uppeldi.

Framtakssemi yfirvélstjórans er aðdáunarverð en hann hefur hengt upp boxpúða á vélarreisninni. Að vísu hefur veðrið verið þannig undanfarið að boxppúðinn hefur í flestum tilfellum haft yfirhöndina. En eftir að veður lagaðist er nú von til þessa að menn komi höggum á hann en þurfi ekki að bíta sig fasta við eyrun á honum.

Ég var nú að hugsa um það um daginn hvort það sé nokkuð betra að vera svona vel tengdur við land eins og við erum orðnir.
Nú fær maður allar fréttir ferskar um leið og þær verða til og hvað er svo að frétta?

Guðmundur í Byrginu fær 3 ár fyrir kynferðislega misnotkun af Guðs náð.
Einhver Fritzl hefur lokað dóttur sýna inni í 24 ár og á með henni sjö börn.
Kennari við háskóla hefur verið að misnota eigin og annara börn í mörg ár.
Náungi sleppur með nauðgun af því að hann lamdi ekki fórnarlambið nógu illa.
Nauðgun hér og nauðgun þar.

Eitt er svo eins og rauður þráður í gegnum þetta allt saman að þær bætur sem fórnarlömbum nauðgunar eru dæmdur eru alltaf minni er málskostnaðurinn.
Hvað ætli það kosti að nauðga lögfræðingi?

Ég ætlaði nú ekki að vera með nein leiðindi.

Um daginn var kynnt í upphafi Kastljóss að við fengjum að skyggnast inn í líf sjómannsins. Ég beið í ofvæni en varð fyrir vonbrigðum. Þetta voru tvær listaspýrur sem fóru einn dag á snurvoð, að ég held og urðu uppveðraðir. Lítið kom fram í þættinum annað en sjóveiki, góður matur og að sjómenn tali óskiljanlegt mál eins og stjór, bak, brú og stím. Þetta skilur náttúrulega ekki nokkur maður.

Þetta gerði mig nú pínu pisst
svo páraði þetta á blað.
Sjá það nú að sjómennska er list,
slíkt hefur ætíð verið vitað.

kveðja
Valdi vél

06.05.2008 10:45

Þorskur

Ef einhver er að deyja út er það ekki nema sjálfsögð kurteisi að láta hinn sama vita af því. Það veit það svotil hver lifandi vera á Íslandi að þorskstofnar við landið eru að hverfa, en einhver hefur bara gleymt að láta þorskinn vita af því. Það er náttúrulega óforsvaranlegt hjá þorskinum sem er í útrýmingarhættu að veiðast svo um allann sjó.

Vita þeir hjá Hafrannsókn hvernig þorskurinn lítur út?

Eru þorskar kannski vitsmunaverur sem eru að leika á okkur? Það eru kannski þeir sem sitja við stjórnvölinn. Það gæti útskýrt ýmislegt með þessa þorskhausa sem sitja í stjórn og stofnunum lýðveldisins.

Alla vega þá gengur Hafró ekkert að stýra vexti þorskstofnsins, ættum kannski að láta þá frekar vera í stýrivöxtunum. Þeir myndu draga úr þeim hvað sem gengi á.

Við erum komnir á Torgið í grálúðu, of mikill þorskur alls staðar.

Óskum GuðmundaríNesmönnum til hamingju með túrinn.

Brælubænin borgaði sig, komin blíða.

Ætti kannski að reyna við þorskinn........................!

Bæn af góðu gerð,
gjarnt, að þér stinga.
Fjallar um vegferð,
fiskifræðinga.

Ef eina ósk ætti,
ég myndi velja.
Gott mér það þætti,
þeir kynnu að telja.

kveðja
Valdi vél.

04.05.2008 10:21

Bræla

Hér er bræla alla daga.

Við erum ennþá hérna fyrir austan og gengur ágætlega en bölvaðar brælur eru hér alla daga. Maður er farinn að hafa áhyggjur af því að þetta sé orðið viðvarandi ástand. Þetta er kannski það sem koma skal eftir þessar breytingar sem umhverfisáhrifin hafa haft. Allt saman Al Gore að kenna!!
Af okkur er kannski ekki margt að frétta. Það hefur verið bræla flesta daga. Lumbran hefur lagt fleiri í koju. Svo hefur verið bræla flesta daga. Komu að vísu tveir góðviðris dagar, en svo hefur verið bræla flesta daga. Baadermaður skar sig á putta. Nú, svo hefur verið bræla flesta daga.
Einhver var að segja að það hafi verið ágætisveður í síðasta túr hjá hinu hollinu en við tökum öllu með fyrirvara frá hinu hollinu.
Engar fréttir eru af úthafinu, eflaust brælur þar líka.
Þetta er orðið ágætt.

Himnesk sæla handan við
helvísk bræla á jörð.
Var að pæla ef fengi frið,
föður mæla þakkargjörð.

kveðja
Valdi vél
  • 1
clockhere
Flettingar í dag: 4
Gestir í dag: 3
Flettingar í gær: 20
Gestir í gær: 15
Samtals flettingar: 236931
Samtals gestir: 77714
Tölur uppfærðar: 11.12.2018 01:56:18

Arnar HU-1

Heimasími:

8512046

Um:

Tegund Frystitogari
Kallmerki TF-AM
Heimahöfn Skagaströnd
Brúttótonn 1854.4
Mesta lengd 59.97
Breidd 13.0
Smíðaður í Noregi 1986
Fluttur inn 1996
Aðalvél Wärtsilä
Árgerð 1986
Hestöfl 4086
Afl í kW 3000
Útgerð Fisk Seafood

Tenglar